7 Valkostir lífsleiðarinnar
Best heppnaða lífsstefnan er sú sem mótuð er af brennandi þrá og áhuga á viðfangsefnum. Gott nesti, farartæki við hæfi og rétt viðbrögð við óvæntum atburðum auka líkur á ánægjulegu lífsferðalagi og skilar okkur frekar sælum á áfangastað.
Það má líkja lífinu við langa og viðburðaríka ferð. Við höldum af stað í þá ferð misvel búin. Sumir búa við ofgnótt á meðan aðrir líða skort. Ofgnótt getur valdið jafn miklum vanda og skortur og því er það skoðun margra að hinn vandrataði meðalvegur sé sá skynsamlegasti, sem leið að hamingjuríku lífi.
Reglulega er hollt að líta um öxl og taka stöðuna á þeirri dýrmætu leið sem lífið er.
Þá getur verið gott að spyrja sig spurninga eins og:
- Hvert er ferð minni heitið?
- Þekki ég leiðina á áfangastað?
- Er veganesti mitt rétt samsett?
Með því að tileinka sér einfalda aðferðarfræði þar sem blandað er saman kerfisbundnum aðferðum, þjálfun og leiðsögn má ná mörgum gæfuríkum áfangastöðum á lífsleiðinni.
1#Veldu þér lífsstefnu út frá áhugasviði
Stefna okkar í lífinu mótast hvort tveggja af erfðum og umhverfi. Best heppnaða lífsstefnan er sú sem mótuð er af brennandi þrá og áhuga á viðfangsefnum. Sé brennandi þrá og áhugi til staðar erum við fremur tilbúin að færa fórnir og leggja á okkur þá vinnu sem oft er nauðsynleg til þess að ná settu marki.
Lífsstefnan sjálf getur falið í sér áhættu enda erum við ekki eyland heldur lifum í samfélagið við annað fólk. Sé lífsstefna okkar til dæmis aðeins fólgin í því að þú ein(n) náir árangri er líklegt að þú lendir í árekstrum við aðra á leiðinni. Að sama skapi ef lífsstefna þín markast um of af því að aðrir nái árangri eru líkur til þess að þú sitjir eftir.
Spurðu þig:
- Hvað fær mig til að brenna af áhuga?
- Í hverju hef ég helst náð árangri?
- Hver er tilgangur minn og lífsstefna?
2#Veldu þér raunhæfan en áhugaverðan áfangastað
Val okkar á áfangastöðum í lífinu mótast bæði af því sem við sjáum og því sem við lærum á lífsleiðinni.
Færa má rök fyrir því að skáldskapur eigi þátt í því að móta mynd okkar af eftirsóknarverðum áfangastöðum í lífinu. Við sjáum líf annarra í gegnum sögur sem sagðar eru með leik- og myndlist, í bókmenntum og nú síðast á samfélagsmiðlum. Öll eiga þessi sýnishorn það sameiginlegt að segja aðeins hluta sögunnar.
Spurðu þig:Það er einkennandi fyrir sögur sagðar á samfélagsmiðlum að þær fjalla oft á tíðum frekar um það sem heppnast vel en það sem ekki gengur upp. Vandinn sem þessi sýnishorn skapa er að áhorfendur sem ekki ná settu marki eins og sögupersónurnar, geta misst móðinn þegar vandamál eða hindranir koma upp í þeirra lífi.
- Hvaða áfangastaðir finnast mér helst eftirsóknaverðir?
- Hvaða árangri vil ég ná?
- Afhverju vil ég ná þeim árangri?

3#Skilgreindu upphafs- og endapunkt ferðalaganna
Lífið er ferð sem samsett er úr mörgum smærri ferðalögum. Hvert ferðalag hefur skilgreindan upphafs- og endapunkt bæði í tíma og rúmi og því ættu þau ferðalög sem við förum í lífinu að hafa slíka punkta einnig. Þeir veita okkur að einhverju leyti stjórn og yfirsýn sem eykur öryggi sem er mikilvægt þar sem margt óvænt getur komið uppá.
Spurðu þig:
- Á hvaða ferðalagi ertu um þessar mundir?
- Hver var upphafspuntur ferðalagsins?
- Hver er endapunktur hans?
4#Taktu með þér gott nesti
Í góðu nesti fyrir lífsleiðina er slatti af hugrekki, vel stilltar væntingar og góðir ferðafélagar. Við verðum að hafa hugrekki til að takst á við óvænta atburði og gera raunhæfar væntingar bæði til ferðalagsins, ferðafélaganna og áfangastaðarins. Með því að stilla væntingum í hóf er minni hætta á að lenda í ólgusjó á leiðinni. Fyrir þá sem þrífast best í spennu og ólgu getur verið gott að huga vel að öryggisbúnaði.
Spurðu þig:
- Hvað ertu með í nesti?
- Vantar eitthvað í nestið?
- Er einhverju of aukið?
5#Veldu þér hraða og farartæki við hæfi
Í upphafi ferðar þarf að velja sér farartæki við hæfi. Ef þú kýst að ganga er ljóst að þú er lengur á áfangastaðinn en ef þú ekur, en þú nýtur ferðarinnar með öðrum hætti. Eftir því sem hægar er farið því meiri líkur eru til þess að þú njótir betur þess smáa sem fer að öllum líkindum framhjá þeim sem hraðar fara. Veldu þér það farartæki sem tekur mið af þeim hraða sem hentar þér best til ferðarinnar en taktu einnig mið af hraða ferðafélaganna svo að þú farir ekki á undan þeim eða sitjir eftir.
Spurðu þig:
- Á hvaða hraða viltu ferðast?
- Hvaða farartæki hentar best þeim hraða?
- Á hvaða hraða ætla ferðafélagar þínir að ferðast?
6#Taktu farartálmum með opnum huga
Lífið felur ávallt í sér farartálma af einhverju tagi. Sumir taka slíkum tálmum opnum örmum og nálgast þá sem verkefni sem auðga líf þeirra og styrkir. Aðrir reyna eftir fremsta megni að komast framhjá þeim án þess að fara í gegnum þá skoðun sem þeir krefjast. Farartálmar eru þeim eiginleikum gæddir að þeir gefa okkur tíma sérstakleg þeim sem ferðast á miklum hraða, til þess að meta það hvort við erum á réttri leið og endurmeta þann hraða sem við ferðumst á.
Spurðu þig:
- Hvaða farartálmar hafa orðið á vegi mínum í lífinu?
- Hafa þeir farartálmar styrkt mig eða veikt?
- Hef ég komist í gegnum þá farartálma eða stend ég enn við hlið þeirra og bíð þess að komast í gegn?
7#Vertu viðbúin vegamótum
Vegamót eru þau atvik í lífinu sem fela í sér meiriháttar breytingar á okkar daglega lífi. Þar getur verið um að ræða breytingar í vinnu eða einkalífi sem hafa veruleg áhrif á daglegt líf. Líkt og fararálmarnir eru vegamótin tilkomin af ólíkum ástæðum og geta haft mikil áhrif. Þau geta fært okkur í átt að nýjum áhugaverðum áfangastöðum eða á ákveðna endastöð með tilheyrandi sársauka og vonbrigðum.
Spurðu þig:
- Hef ég komið að vegamótum í mínu lífi?
- Hvað breyttist á þeim vegamótum?
- Hafði sú breyting áhrif á líf mitt til hins betra eða verra?
Gangi þér vel!