Af hverju ætti ég að rækta þakklæti?
Að rækta þakklætið getur aukið lífshamingju en jafnframt komið í veg fyrir stórkostlegan skaða. Ef þingmennirnir sem sátu á Klausturbarnum hefðu borið gæfu til þess að rækta þakklætið væri staða þeirra önnur en hún er í dag.
Manninum er tamt að einblína á það sem hann skortir. Sá eiginleiki hefur hjálpað tegundinni að lifa af og þróast með ótrúlegum hætti. Hæfileiki mannsins til þess að ná sér í fæði og skapa sér og sínum öryggi og húsaskjól gerði það að verkum að við lifðum af í samkeppni tegundanna.
Í dag er staðan sú að aldrei hafa færri í sögu mannkyns lifað undir fátæktarmörkum líkt og sjá má á mynd 1. Þrátt fyrir að mannkyninu hafi fjölgað þrefalt undanfarna hálfa öld hefur á sama tíma fækkað stöðugt í þessum hópi.
Mynd 1. Þróun fátæktar og mannfjölda á tímabilinu frá 1820-2015. Heimild: www.ourworldindata.org.
Á sama tíma og mannkyninu hefur efnahagslega aldrei vegnað betur er umræðan um andlega velferð fólks áberandi. Há og jafnvel hækkandi tíðni geð- og fíknisjúkdóma er enda áskorun sem vert er að leita skýringa á og finna lausnir við (sjá mynd 2).
Mynd 2. Hlutfall fólks með geð- og fíknisjúkdóma í nokkrum löndum heims ásamt heimsmeðaltali. Heimild: www.ourworldindata.org.
Það má velta því fyrir sér hvort sá eiginleiki okkar að einblína sífellt á skort í stað allsnægta sé að koma okkur í koll nú þegar við lifum á tímum meiri efnahagslegra gæða en nokkru sinni fyrr.
Markaðsskilaboð eru hönnuð til þess að láta okkur upplifa skort eða þörf fyrir ákveðna vöru og þjónustu og oft á tíðum eru skilaboðin svo sannfærandi að við teljum að líf okkar verði ófullkomið ef okkur mistekst að komast yfir það sem í boði er við fyrsta mögulega tækifæri.
Með sama hætti virðist mannskepnunni vera tamara að einblína á það sem mistekst í daglegu lífi fremur en það sem gengur upp. Rannsóknir hafa sýnt að á venjulegum degi gagnist um 80% af því sem við gerum vel. Margir kannast hins vegar við að verja meiri tíma í að velta fyrir sér því sem aflaga fór en því sem vel gekk. Sumir ganga jafnvel svo langt að telja að „neikvæða röddin“ hafi orðið um 70% af tímanum en sú „jákvæða" einungis um 30%.
Hvernig rækta ég þakklætið?
- Horfðu til styrkleika þinna og annarra í stað veikleika
- Horfðu til þess sem vel gengur og vel er gert í stað þess sem aflaga fer
- Horfðu til þess sem þú hefur í stað þess sem þig skortir
- Talaðu og hugsaðu fallega til þín og annarra
Ávinningur þinn af því að rækta þakklætið.
- Minni streita: Því fylgir umtalsverð streita að vera sífellt að einblína á það sem maður hefur ekki og finna leiðir til að eltast við það.
- Sterkari sambönd: Þú ræktar þau vina- og fjölskyldusambönd sem þú hefur í stað þess að leita sífellt nýrra sambanda.
- Aukin lífsánægja: Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem iðka þakklæti eru hamingjusamari en þeir sem gera það ekki.
Að rækta þakklætið getur komið í veg fyrir stórkostlegan skaða.
Ef þingmennirnir sem sátu að sumbli á Klausturbarnum um daginn hefðu fremur talað um það jákvæða í fari fólks en það sem þeir töldu neikvætt væri staða þeirra í dag önnur. Sú jákvæða umræða hefði líklega aldrei ratað í fjölmiðla. Hefðu sexmenningarnir borið gæfu til að rækta þakklætið væru þau líklegast öll við vinnu á Alþingi. Þau væru væntanlega þakklát fyrir það í dag.
Góðar stundir og njótum aðventunnar með þakklætið að leiðarljósi.