Ég þarf að hreyfa mig meira!
Tíminn er líklega ein mikilvægasta auðlind nútímamannsins. Nánast hver dagur er pakkaður af verkefnum sem vonandi hafa það öll að markmiði að bæta lífsgæði okkar - eða hvað?
Fyrirsögn greinarinnar - Ég þarf að hreyfa mig meira - er fengin úr greiningu á niðurstöðum tæplega 800 svara þeirra sem tóku Jafnvægispróf Heilsufélagsins um mánaðamótin júlí/ágúst 2018.
Þátttakendur voru spurðir hvað þeir teldu sig helst þurfa að gera, ef eitthvað, til þess að bæta andlega og/eða líkamlega heilsu sína um þessar mundir. Yfir 100 þátttakendur töldu að meiri hreyfing gæti helst bætt líðan þeirra en margir nefndu jafnframt að tímaskortur t.d. vegna vinnu og/eða heimilis væri helsta fyrirstaðan.
Að meðaltali skoruðu þátttakendur 71 stig af 115 mögulegum á Jafnvægisprófinu sem gefur til kynna að almennt var andleg og líkamleg heilsa þeirra fyrir ofan meðallag. Athygli vakti að um 10% þátttakenda hreyfa sig daglega þannig að þeir svitni og/eða púlsinn hækki en um 41% þátttakenda gera slíkt nokkrum sinnum í viku. Rúmlega 19% hreyfa sig hraustlega nokkrum sinnum í mánuði.
Hreyfing á að vera dagleg skemmtun þar sem við höfum hið gullna jafnvægi að leiðarljósi!
Dagleg hreyfing er líkamanum nauðsynleg. Þú finnur áhrifin af góðri hreyfingu yfirleitt alltaf í kjölfar hennar. Þú endurnærir líkama og sál og ert betur í stakk búin(n) til þess að takst á við næstu verkefni.
Hreyfing er sem sagt eitt besta eldsneytið sem þú getur fengið ef mikið er að gera og/eða mikið liggur við.
En hvernig er best að koma sér af stað í hreyfingu og gera hana að daglegri venju?
- Settu hreyfingu á dagskrá hvern einasta dag. Hreyfing á að vera eins nauðsynlegur hluti af daglegum venjum þínum (rútínu) eins og að bursta tennur eða borða mat. Veldu þann tíma dagsins sem ólíklegast er að eitthvað óvænt komi upp á þannig að þú þurfir að breyta plani og ekki gefa tímann eftir nema mikið liggi við. Lífsgæðadagbók Heilsufélagsins hefur hjálpað mörgum af stað í reglubundna hreyfingu.
- Finndu þér skemmtilega hreyfingu og umhverfi sem þér finnst notalegt eða áhugavert. Ganga og/eða skokk í hverfinu þínu eða nágrenni heimilisins er oft besta heilsuræktin. Ef þér leiðast t.d. líkamsræktarsalir skaltu ekki velja þá sem vettvang fyrir þína hreyfingu. Hreyfing á ekki að vera afplánun heldur eitthvað sem þú hlakkar til að takast á við.
- Gerðu ekki meira en líkami þinn þolir en ekki minna en svo að þú finnir að þú hefur reynt á þig án þess að ganga of nærri þér. Margir láta verki og meiðsl standa í vegi fyrir því að hreyfa sig. Róleg hreyfing getur minnkað verki. Ef þú finnur til skaltu leita leiðsagnar læknis eða sjúkraþjálfara.
Sem sagt: Hreyfing á að vera dagleg skemmtun þar sem við höfum hið gullna jafnvægi að leiðarljósi!
Góða skemmtun og gangi þér vel að hreyfa þig meira!