Hvernig jafna konur leikinn?
Í stað þess að leggja áherslu á að klifra upp valdastigann í rótgrónum fyrirtækjum ættu konur í ríkara mæli að einbeita sér að því að lesa í þarfir markaðarins og stofna ný fyrirtæki til þess að mæta þeim.
Vinnumarkaðurinn er eins og hver annar leikvöllur. Þar til fyrir 40 árum voru eingöngu karlmenn á leikvellinum. Leikreglur vallarins voru því á þeim tíma eðli málsins samkvæmt, skrifaðar af körlum og fyrir karla.
Konur hafa smátt og smátt verið að stíga fram á völlinn. Í upphafi sáu þær aðallega um símsvörun og kaffið en nú fjórum áratugum síðar hefur einstaka kona tekið við forstjórahlutverkinu og konur koma nú samkvæmt tölum Hagstofunnar að stjórnun um fjórðungs fyrirtækja á Íslandi.
Þessi vegferð hefur ekki verið án fórna eins og fram hefur komið í sögum kvenna undir myllumerkinu #metoo. Fátt kemur í raun á óvart í þeim sögum en það sem meira máli skiptir er að loks höfðu konur hugrekki til þess að stíga fram, að minnsta kosti í flestum atvinnugreinum.
Hraðar tækniframfarir síðustu ára þar sem netið gegnir lykilhlutverki sem markaðstorg gera það að verkum að einfaldara er nú en oft áður að stofna fyrirtæki, framleiða vörur, byggja upp þjónustu, söluleiðir, ímynd og mynda sterk tengsl við viðskiptavini.
Það má því færa rök fyrir því að nú sé einstakt tækifæri fyrir konur að auka hlutdeild sína í eignarhaldi og rekstri fyrirtækja með því að taka af skarið, sýna hugrekki og stofna fyrirtæki sem er ætlað að mæta þörfum núverandi og komandi kynslóða.
Konur hafa tekið þátt í leiknum nægjanlega lengi og aflað sér á þeim tíma bæði menntunar og reynslu sem duga nú rúmlega til þess að taka næsta skref og auka hlutdeild kvenna í eignarhaldi og rekstri fyrirtækja.
Nýlegar rannsóknir sem OECD, Facebook og World Bank létu framkvæma, benda til þess að jafnvel þó að konur séu líklegri nú en nokkru sinni fyrr til þess að stofan fyrirtæki séu enn hindranir í veginum þegar kemur að vexti og fjármögnun þeirra.
Hugrekkið til þess að taka af skarið liggur hjá konum sjálfum. Það bíður svo þeirra sem fjárfesta í góðum hugmyndum að gera þeim kleift að vaxa og dafna og þannig leggja sitt lóð á vogarskál fjölbreytni og samkeppnishæfni til framtíðar.