Hversdagslífið
Hátíðir fela í sér uppbrot á hversdagslífinu. Mörgum þykir sá tími nauðsynlegur til þess að létta sér lífið og njóta þess að brjóta upp rútínuna og leyfa sér svolítið. Öðrum finnst sá tími erfiður einmitt vegna þess að hversdagslífið er þannig úr garði gert að það felur í sér frábær lífsgæði.
Við upphaf nýs árs nota margir tímann til sjálfskoðunar, horfa til baka og fram á veginn og spyrja sig spurninga eins og:
- Hvað í mínu lífi veitir mér hamingju?
- Er ég að næra það sem mestu máli skiptir?
- Er ég að vinna með þá þætti sem mættu betur fara og ég get haft stjórn á?
- Hef ég náð þeim markmiðum sem ég setti mér á síðasta ári (ef þau voru einhver)?
- Hverju vil ég breyta til þess að gera líf mitt betra?
Oft fæðast háleit markmið út frá þessum pælingum. Margir setja sér markmið um aukna hreyfingu og ætla jafnvel að stunda æfingar eins og atvinnuíþróttafólk samhliða fullu starfi og fjölskylduábyrgð á meðan aðrir ætla að gera smávægilegar breytingar í átt til betra lífs.
Photo by Jacob Postuma on Unsplash
Ógrynni upplýsinga um réttu matarkúrana, fæðubótarefnin og æfingakerfin dynur á fólki um þessar mundir og því tapa sumir áttum og - þrátt fyrir háleit markmið um heilsusamlegra líferni - falla í sama farið með tilheyrandi vonbrigðum.
Í umhverfi þar sem fólk er varla gjaldgengt nema það sé vegan, fastandi 5:2 og á leið í landvættina getur verið gott að hafa í huga að þegar öllu er á botninn hvolft eru það fjögur atriði sem eru mikilvægust þegar kemur að því að vinna að lífsgæðum og auka líkur á því að hversdagurinn verði sú uppspretta vellíðunar og hamingju sem hann getur orðið ef við bara hlustum á okkar eigið innsæi.
- Borðaðu það sem líkaminn þinn elskar. Það veit enginn betur en þú hvernig sá matur sem þú innbyrðir frá degi til dags fer í líkama þinn. Reyndu að halda þig við fæðutegundir sem láta þér líða vel. Hæfileg orkuinntaka er 1500-2000 kaloríur á dag. Taktu D-vítamín yfir vetrartímann ef þú býrð á Íslandi.
- Þjálfaðu daglega bæði líkama og sál. Líkami okkar er ekki gerður fyrir kyrrsetu. 20 mínútna hreyfing sem eykur hjartslátt nægjanlega mikið, en þó þannig að það valdi ekki óþægindum, er nauðsynleg til þess að halda líkamanum við. Verkefni sem krefjast einbeitingar og hugarleikfimi eru jafnmikilvæg og hreyfingin þannig að ekki láta þau sitja á hakanum.
- Eigðu uppbyggilega samveru með sjálfri(um) þér og öðrum. Samvera með góðum vini eða vinkonu getur gert kraftaverk fyrir sálarlífið. Jafnmikilvægt er að eiga samveru með sjálfum sér. Í veröld þar sem ofgnótt er af áreitum er fátt sem toppar stund þar sem maður heyrir ekkert nema eigin hugsanir. Uppbyggileg samvera felur í sér að koma auga á það jákvæða í lífinu, tala af einlægni og nærgætni en jafnframt að finna góðar lausnir á því sem betur má fara.
- Gerðu þitt besta til þess að sofa 7-8 klst. á nóttu og taktu hleðslustundir eftir þörfum. Það tekur oft nokkra daga að koma svefninum í rétt horf eftir óreglu hátíðanna. Í því felst tækifæri til þess að æfa góðar venjur í aðdraganda svefntíma. Slökktu á öllum skjám, minnkaðu lýsingu og hlustaðu á róandi tónlist, hljóðbók eða lestu eitthvað fallegt. Ef það dugar ekki til má bæta við slakandi tei eða magnesíumdrykk. Ef þú þreytist yfir daginn getur hleðslustund, 10-20 mínútna hvíld, endurnýjað andlegan og líkamlegan styrk.
Einfaldur og notalegur hversdagur þar sem forgangsröðunin miðar öll að því að næra það sem eykur lífsgæði okkar og hamingju er að öllum líkindum besta gjöfin sem þú getur gefið þér og þínum árið 2020.