Í hverju á ég að fjárfesta á nýju ári?
Margir nota áramót til þess að marka upphaf að breyttu lífi. Fjölmörg áramótaheit hafa það að markmiði að bæta heilsu og vellíðan. En af hverju reynist okkur svona erfitt að ná fram breytingum á hegðun okkar, sem þýðir að við missum af tækifærinu til betra lífs?
Líkamsræktarkort er ein vinsælasta fjárfestingin á nýju ári. Margir bæta líka við nýjum líkamsræktarfatnaði og öðru tilheyrandi svo að maður lúkki nú í ræktinni og selfíið verði örugglega birtingarhæft. Það er nefnilega þannig í nútímanum að ef atburðir eru ekki staðfestir rafrænt þá hafa þeir ekki átt sér stað.
Því miður er það svo að margir nota líkamsræktarkortið minna en efni stóðu til. Eigendur líkamsræktarstöðva gera í raun ráð fyrir því í áætlunum sínum að aðeins hluti þeirra sem fjárfesta í korti í upphafi árs nýti kortið reglubundið allt árið. Ástæða þess er ofur einföld: það er erfitt að breyta hegðun.
Manneskjan er dýrslega vanaföst og því reynist mörgum afar erfitt að breyta venjum sínum eða rútínu. Hjá Heilsufélaginu hefur á síðustu misserum verið unnið að fjölmörgum verkefnum þar sem markmiðið var einfalt: að breyta hegðun. Í þeim verkefnum hefur að jafnaði verið unnið samkvæmt ferlinu sem sjá má á mynd 1.
Mynd 1. Ferli um árangursríka breytingu á hegðun.
- Korleggja núverandi hegðun. Hvað í núverandi hegðun er æskilegt og hvað er óæskilegt? Margir detta í þann pytt að einblína bara á það sem er óæskilegt og gleyma öllu því jákvæða sem er í núverandi hegðun. Við til dæmis hreyfum okkur öll eitthvað á hverjum degi þó að margir séu í þeirri stöðu að hreyfa sig minna en þeir þyrftu, til dæmis út frá því sem þeir innbyrða af mat.
- Kortleggja æskilegar breytingar. Í þessu skrefi skiptir mjög miklu máli að setja fram nákvæma lýsingu á þeirri hegðun sem er eftirsóknarverð. Það er til dæmis ekki nægjanlegt að taka bara ákvörðun um að byrja að æfa. Maður verður að tiltaka hversu oft maður ætlar að gera það, á hvaða tíma, hvað maður ætlar að gera og svo framvegis. Því nákvæmari sem þú ert í að kortleggja æskilega hegðun þeim mun meiri líkur eru á að þú náir breytingunum fram.
- Framkvæma breytingar. Ef þér gengur vel með skref 1 og 2 er ekkert að vanbúnaði að hefja æfingar. Ekki bíða með það þar til dagatalið sýnir 1. eða 2. janúar. Ef þú getur og hefur tíma til þess að byrja í dag skaltu gera það. Komdu þér á óvart og byrjaðu áður en þú ætlaðir upphaflega.
- Verðlaun fyrir rétta hegðun. Okkur er tamt að hugsa að breytingar hljóti að fela í sér miklar þjáningar. Þær hugsanir eru eðlilegar enda er sífellt um það fjallað til dæmis í bíómyndum og raunveruleikaþáttum. Leiðin að breyttri hegðun þarf alls ekki að fela bara í sér þjáningar. Þú þarft þvert á móti að vera reiðbúin(n) að verðlauna sjálfa(n) þig fyrir árangurinn hvern þann dag sem árangur næst. Umbunin má bara alls ekki fela í sér að taka upp óæskilega hegðun eins og að borða óhollan mat eða leggjast í gommugláp á Netflix. Því er ráðlegt að setja saman lista yfir þau verðlaun sem þér þykja eftirsóknaverð og fela ekki í sér gamla ósiði áður en haldið er af stað. Það minnkar líkur á því að þú fallir í freistni. Hefur þig til dæmis alltaf langað að prófa kalda pottinn í sundlaugunum? Láttu það eftir þér!
- Festa rétta hegðun í sessi. Líkt og þegar við lærum að ganga er það endurtekningin sem gildir þegar festa á nýja hegðun í sessi. Þegar okkur mistekst stöndum við bara upp aftur. Mistök eru ekki endir alls nema síður sé. Þau eru tækifæri til að auka sjálfsþekkingu. Ef við þorum að gera og læra af mistökum verðum við enn meiri sérfræðingar í okkur sjálfum sem síðan eykur líkur á því að við lifum því lífi sem okkur þykir eftirsóknarvert.
Það er mikilvægt á slíkum stundum – þegar örvæntingin grípur þig og þig langar mest að hætta við allt saman, að minna þig hressilega á af hverju þú hélst af stað og hversu glatað það væri að vera í sömu sporum að ári liðnu.
Lífið er alltof stutt fyrir eintómar þjáningar og hlaup á eftir markmiðum í fjarlægri framtíð. Okkur er eðlislægt að vilja njóta hvers dags og alls þess sem hann hefur upp á að bjóða. Það er samt alveg öruggt að leiðin að breyttu lífi verður einhverjum þyrnum stráð og að hindranir birtast á veginum – stundum þegar þú átt síst von á því. Það er mikilvægt á slíkum stundum þegar örvæntingin grípur þig og þig langar mest að hætta við allt saman, að minna þig hressilega á af hverju þú hélst af stað og hversu glatað það væri að vera í sömu sporum að ári liðnu.
Það sem helst kemur í veg fyrir að þú náir að breyta hegðun þinni er eftirfarandi:
- Þú sjálf(ur). Okkur er því miður mörgum tamt að setja meiri tíma og orku í það sem mistekst í daglegu lífi en það sem heppnast vel. Sjálfsgagnrýni með neikvæðum hugsunum veikir sjálfstraust þitt og kemur í veg fyrir að þú látir litla og stóra drauma rætast. Vertu þinn besti vinur og vinkona meðan á breytingaferlinu stendur. Ef þú ert ekki í liði með sjálfum þér er það örugglega enginn annar. Það er einnig rétt að nefna að það er forsenda allra breytinga að vera í hjarta sínu sannfærður um að þörf sé á breytingum. Skrifaðu ástæður þess að þú ákvaðst að fara af stað í breytingar á þínu lífi á góðan stað, t.d. í „notes“ í símanum þínum. Þannig getur þú rifjað upp ástæður vegferðarinnar hvar og hvenær sem er. Það minnkar líkur á að þú talir sjálfa(n) þig ofan af ferðalaginu.
- Tímaskortur. Tíminn er verðmætasta auðlind nútímamannsins. Það er alveg öruggt að þú breytir ekki hegðun þinni nema að þú takir meðvitaða ákvörðun um að breyta dagskránni þinni og innleiða nýja rútínu. Þar sem slíkt ferli tekur tíma að slípast skaltu gefa þér ríflegan tíma til þess að byrja með. Taktu meðvitaða ákvörðun um hverju þú ætlar að henda út úr gömlu rútínunni og hvað komi í staðinn. Margir sem til dæmis nýta ekki líkamsræktarkortin sín tala um að „hafa bara ekki tíma til þess að mæta í ræktina - það sé bara svo mikið að gera“. Mistök þeirra liggja í því að setja ekki hreyfinguna inn í dagskrána - og/eða búa til rúm fyrir hana í dagskránni. Notaðu dagatal eða dagbók til þess að hjálpa þér að ná yfirsýn.
- Leiði. Það er ekki óalgengt að fólk gefist upp á að breyta hegðun því að nýja rútínan er ekki nógu skemmtileg. Það er því mikilvægt þegar unnið er að því að auka hreyfingu í daglegu lífi að endurnýja rútínuna reglulega og prófa nýja hluti. Framboðið á hreyfingu er nær óendanlegt og hún þarf ekki endilega að eiga sér stað innan veggja líkamsræktarstöðva þó að þær séu frábær vettvangur til að hreyfa sig. Það má líka taka göngutúr úti í náttúrunni í hádeginu eða eiga spennandi stefnumót við elskhuga.
- Skortur á þakklæti. Þegar allt bregst er líka hægt að grípa til þess örþrifaráðs að rækta þakklætið. Þú ert á lífi eftir allt saman og lífið er dásamlegt! Sérstaklega hjá þeim sem gefa sér tíma til að stoppa aðeins í amstri dagsins og koma auga á dásemdirnar sem umvefja okkur.
Ekki fjárfesta bara í nýju korti í ræktina á komandi ári. Fjárfestu líka í tíma til þess að endurskipuleggja líf þitt með aðferðum sem skila árangri.
Með einlægum óskum um heillaríkt komandi ár!
Ragnheiður