Kannski er ÁST það sem þarf?
Hefur blundað í þér löngun svo vikum, mánuðum eða jafnvel árum skiptir til þess að gera breytingar á þínu daglega lífi en ekkert gerist? Kannski er ÁST allt sem þarf?
Að elska sjálfan sig af sama krafti og einlægni og sína nánustu, reynist mörgum erfitt. Skortur á sjálfsást er einmitt oft og tíðum meginástæða þess að þau verkefni sem snúa að okkar eigin velferð lenda aftarlega á verkefnalistanum.
Við viljum gjarnan gera breytingar á lífi okkar en komum okkur ekki að því verkefni þar sem önnur verða einhvern veginn mikilvægari og við vöknum einn daginn upp við þann vonda draum að lifa ekki því lífi sem við helst vildum.
Ef þú ert á þeim stað að langa til að gera breytingar á þínu daglega lífi er í upphafi gott að svara tveimur spurningum sem hafa það að markmiði að gera mynd þína af framtíðinni skýrari.
Gott er að hafa í huga að eftir því sem sýn þín á framtíðina er skýrari þeim mun meiri líkur eru á því að þú munir lifa því lífi sem þú þráir.
- Hvernig lífi lifi ég í dag? Hvað tekur mestan tíma? Hvað tekur mesta orku? Hvað gefur mesta orku? Hvað finnst mér skemmtilegast? Hvað finnst mér leiðinlegast? Hvernig get ég fundið gott jafnvægi milli þess sem ég þarf að gera og þess sem mig langar að gera?
- Hvernig lífi vil ég lifa og af hverju? Lýstu nákvæmlega því sem þú vilt breyta og af hverju þú vilt breyta því til dæmis með því að svara eftirtöldum spurningum:
- Í hvaða verkefni viltu verja meiri tíma?
- Í hvaða verkefni viltu verja minni tíma?
- Hverjar eru ÁST-æður þess að ég vil gera þessar breytingar?
Rannsóknir og reynsla Heilsufélagsins sýnir að það að hafa ÁST-æður þess að þú vilt gera breytingar á þínu lífi á hreinu sé sá þáttur sem auki hvað mest líkur á því að þú náir fram þeim breytingum á þínu lífi sem þú vilt gera.
Í samtölum við viðskiptavini Heilsufélagsins hafa verið nefndar fjölmargar góðar ÁST-æður fyrir verkefnum sem hafa það að markmiði að stuðla að breytingum. Hér er listi með nokkrum þeirra.
- Meiri orka til þess að lifa lífinu lifandi á hverjum degi.
- Minni verkir. Minni bólgur.
- Meira hugrekki til að læra nýja hluti.
- Meira hugrekki til þess að gera það sem mig langar.
- Meiri andleg næring.
- Skýrari hugsun.
- Meira skapandi hugsun.
- Betra eða fjölbreyttara mataræði.
- Minni kvíði.
- Minni streita.
- Betri svefn.
- Meira fjör.
- Þörf til þess að stíga út úr hamstrahjólinu.
Hefur þú hug á að gera breytingar á þínu lífi?
Ef svo er skaltu vera viss um hver þín ÁST-æða er. Ef ÁST-æðan eða ÁST-æðurnar eru skýrar margfaldar þú líkur á því að þær breytingar sem þú vilt gera á þínu lífi nái fram að ganga.
Kannski er ÁSTin eins og gluggi og opnar stofudyr
og hún býður þér í bæinn og betra líf en fyrr.
Og þó þig beri langt af leið um leyndan villu stíg
mun ÁSTin vísa veg og vernda þig.
(Texti: Páll Bergþórsson)
Gangi þér vel og njóttu dagsins!