Láttu veðrið ekki ná yfirhöndinni
Veðrið á suðvesturhorni landsins þessa dagana reynir á þrautseigju fólks. Sumarið sem átti að verða svo geggjað er eins og október, líkt og kona í Vesturbæjarlauginni komst að orði í morgun. Hvað er til ráða?
Mótlæti er ekkert sérstaklega skemmtilegt. Menning okkar ýtir undir þær hugmyndir að best sé að lífið sé auðvelt. Það á ekkert að vera mjög erfitt að verða Instagramstjarna, forstjóri í stóru fyrirtæki, fótboltastjarna, listamaður á heimsmælikvarða, þú þarft bara að leggja þig fram, vera sneggri til en aðrir að grípa tækifærin sem liggja allt í kringum um þig og þá rætast draumar þínir.
En hvað á að gera þegar náttúran snýst gegn manni? Við höfum víst enga stjórn á veðrinu. Viltu láta veðrið ráða því að sumarið verði ömurlegt í minningunni eða ákveða að nota þetta tækifæri og þjálfa þrautseigju þína og staðfestu? Sumarið getur orðið geggjað alveg óháð því hvernig veðrið verður.
Það er nefnilega þannig með lífið að það er hæfileiki þinn til þess að takast á við mótlæti og vonbrigði sem gefur þér mesta möguleika á að láta drauma þína rætast. Það skiptir vissulega máli að vinna skynsamlega úr meðbyr lífsins og oft á tíðum auðvelt að taka rangar beygjur þegar meðvindur er mikill, sérstaklega þegar maður er að læra á lífið. Styrkur þinn kemur hins vegar ekki í ljós fyrr en þú lendir í þrekraun eða mótbyr. Hvernig þú vinnur úr slíkum aðstæðum skilgreinir styrk þinn.
Styrkur þinn kemur hins vegar ekki í ljós fyrr en þú lendir í þrekraun eða mótbyr. Hvernig þú vinnur úr slíkum aðstæðum skilgreinir styrk þinn
Að láta veðrið ekki breyta plönum sumarsins, heldur reyna að finna nýjar leiðir til þess að njóta þess, er holl áskorun. Þú verður sterkari manneskja ef þú tekst á við hana og nýtur sumarsins, algjörlega óháð því í hvernig skapi veðurguðirnir eru.
Ef vel tekst til þá yfirfærist þessi aukna hæfni þín til þess að takast á við mótbyr yfir á annað. Þú verður til dæmis mjög líklega betur í stakk búin(n) til þess að takast á við leiðindaathugasemdir frá vinnufélaga eða vini þegar þú hefur náð tökum á því að láta veðrið ekki stjórna skapi þínu.
Lífið verður vissulega allt skemmtilegra þegar sólin skín og vindurinn er hægari en hann er þessa dagana, en það þarf alls ekki að vera ömurlegt þó að það blási hressilega og rigni. Það eru alltaf einhver tækifæri í því. Göngutúr í nálægum skógi, heimsókn á þau fjölmörgu listasöfn sem borgin hefur að geyma, nú eða bara kúra undir teppi og lesa góða bók.
Gleðilegt sumar!