Nokkur orð um styttingu vinnutíma
Mikil umræða hefur verið að undanförnu um styttingu vinnuvikunnar eftir að Reykjavíkurborg ákvað að leggja til styttingu á opnunartíma leikskóla borgarinnar. Reynsla Heilsufélagsins af styttingu vinnutíma m.a. í leikskólum Hjallastefnunnar sýnir að hægt er að stytta vinnutíma starfsmanna án þess að skerða þjónustu.
Mikilvægt hlutverk leikskóla
Í samfélagi okkar gegna leikskólar mikilvægu uppeldislegu, menntunarlegu og efnahagslegu hlutverki.
Börnin eru okkar dýrmætasta eign og þeir sem nýta þjónustu leikskóla treysta starfsfólki þeirra fyrir því að sinna mikilvægu uppeldis- og menntunarhlutverki í lífi barna okkar og þar með fjölskyldunnar allrar.
Leikskólar voru forsenda þess að konur gætu tekið virkari þátt á vinnumarkaði og nú er staðan sú, einmitt vegna þess hversu góða þjónustu íslenskir leikskólar veita, að íslenskar konur eru með einna mesta atvinnuþátttöku kvenna í heiminum. Það er staðreynd sem við erum afar stolt af.
Konur gegna því sífellt mikilvægara hlutverki í atvinnulífinu þó að við vildum klárlega sjá fleiri konur í æðstu stöðum í viðskiptalífinu. Ekki má heldur gleyma því að góðir leikskólar gera líka körlum með fjölskylduábyrgð kleift að viðhalda sinni atvinnuþátttöku.
Verðmætamat starfa
Í sögulegu samhengi leysir starfsfólk leikskóla af hólmi þau (aðallega konur) sem áður voru heimavinnandi og gættu bús og barna. Þau störf voru ólaunuð og er það eflaust ein meginástæða þess að störf leikskólakennara sem hefur 3-5 ára háskólamenntun eru til dæmis minna metin en störf bankastarfsmanns með jafnlanga háskólamenntun.
Vaxandi samstaða virðist vera um að bæta stöðu kvennastétta sem sinna umönnunar- og uppeldistörfum þ.e. þeim störfum sem lengi vel voru ólaunuð kvennastörf, en konur sinna í dag í mun ríkari mæli en karlar, fyrir laun sem oft og tíðum nægja ekki til framfærslu. Einnig hefur verið mikið rætt um að bæta starfsumhverfi þessara hópa t.d. með því að minnka álag og stytta vinnutíma enda er brottfall af vinnumarkaði vegna álagstengdra veikinda hátt í þessum hópum.
Í viðleitni sinni til þess að bæta starfsumhverfi starfsfólks leikskóla hjá Reykjavíkurborg lagði meirihlutinn í borgarstjórn nýverið til að opnunartími leikskóla borgarinnar yrði styttur. Hugmyndin um skerðingu á þjónustu lagðist ekki vel í alla og er það skiljanlegt því að þarfir notenda þjónustunnar eiga að ráða för þegar breytingar eru gerðar.
Kjarkur er allt sem þarf!
Góð lausn á þeirri stöðu sem nú er komin upp í Reykjavíkurborg er í raun einföld, margprófuð og árangursrík, því að reynsla Heilsufélagsins sýnir að það er vel mögulegt að stytta vinnutíma starfsfólks leikskóla sem og annarra fyrirtækja og stofnana án þess að skerða þjónustu. Allt sem þarf til er vilji og kjarkur stjórnenda til að skipuleggja vinnutímann í nánu samstarfi við starfsfólk og nýta með þeim hætti öll þau tækifæri sem umbótastarf eins og stytting vinnutíma getur haft í för með sér.
Starfsfólkið sjálft hefur mesta þekkingu á sínum störfum og er því best til þess fallið að koma auga á þau tækifæri sem geta falist í því að skipuleggja vinnuna með nýjum hætti. Til þess að virkja hugmyndir þeirra er oft þörf á hvatningu og leiðsögn til dæmis í gegnum vinnustofur sem afhjúpa oft frábærar lausnir og draga skýrt fram styrkleika og tækifæri hverrar starfseiningar.
Það er löngu orðið tímabært að endurhugsa leikreglur á vinnumarkaði. Konur hafa tekið stóran þátt í að byggja upp sterka efnahagslega stöðu Íslands með þátttöku sinni á vinnumarkaði í 50 ár en á þeim tíma hefur of lítið gerst í því að auka sveigjanleika fólks til þess að samhæfa fjölskyldu- og einkalíf. Niðurstaðan er sú að of margir – og mun fleiri konur en karlar – heltast úr lestinni á vinnumarkaði vegna álagstengdra vandamála. Það er staðreynd sem við verðum að horfast í augu við og vinna markvisst að því að breyta. Ávinningurinn verður sá að íslenskar konur munu áfram verða í framvarðasveit í heiminum í að byggja upp öflugt atvinnulíf sem tekur tillit til nútímaþarfa fólks fyrir fjölskyldu- og einkalíf.
Þetta er verkefni þar sem allir munu bera sigur úr býtum!
Í meðfylgjandi myndbandi má sjá Þórdísi Jónu Sigurðardóttur framkvæmdastjóra Hjallastefnunnar og Ragnheiði Agnarsdóttur eiganda Heilsufélagsins ræða um áskoranir og ávinning af tveggja ára tilraunaverkefni um styttingu vinnudagsins hjá Hjallastefnunni. Vinnutími var styttur um klukkustund á dag hjá öllu starfsfólki í leikskólum Hjallastefnunnar sem voru í fullu starfi.
Árangursrík stytting vinnuvikunnar