Gleðilegt og endurnærandi sumarfrí
Flest bíðum við í ofvæni eftir því að komast í sumarfrí. Við hlökkum til að brjóta upp hið reglubundna líf og „slappa af“. En stundum geta sumarfrí verið krefjandi tími. Hver fjölskyldumeðlimur hefur sínar væntingar um hvað eigi að gerast á þeim tíma og hvernig maður nýtur hans best.
Við höfum líklega flest heyrt sögur af eða upplifað sjálf stundir í fríi þar sem eftirvæntingin og gleðin sem allir áttu von á að myndi einkenna sumarleyfið, snýst á einu augnabliki upp í örvæntingu og spennu.
Hér fylgja því nokkur atriði sem hafa reynst vel til að auka líkur á að sumarfríið verði ánægjulegt, endurnærandi og góð tilbreyting frá daglegu lífi.
# Setja saman óskalistann
Þótt það hljómi eins og andstæða þess að vera i fríi að halda fund og gera lista þá getur það verið afar góð uppskrift að góðu sumarfríi. Fjölskyldan sest saman niður og hver og einn fær tækifæri til að segja frá því sem henni eða honum og okkur sem fjölskyldu finnst skemmtilegast að gera og langar að gera í fríinu. Listinn er því nokkurs konar hugmyndabanki sem hægt er að nota til að gera það sem nærir og gleður. Það er mikilvægt að allir hafi jafnan tillögu- og atkvæðisrétt þegar kemur að því að setja saman hugmyndir að gleðilegu sumri.

# Missa ekki alveg jafnvægið
Frí eru gjarnan tími þar sem fólk leyfir sér að sleppa tökunum á reglu og mörkum. Við borðum og drekkum kannski meira og óreglulega, hættum að fara í ræktina eins og við gerum gjarnan þegar lífið er í föstum skorðum, erum meira í félagsskap með öðru fólki og vökum lengur til þess að njóta sumarbirtunnar. Þessar breytingar gera það að verkum að það sem að jafnaði viðheldur líkamlegu og andlegu jafnvægi, regluleg hreyfing, næring og svefn fer úr skorðum með tilheyrandi aukaverkunum, bæði góðum og slæmum.
# Læra eitthvað nýtt
Þó að frí séu gjarnan góður tími til þess að styrkja vina- og fjölskyldusambönd ættu þau líka að vera góður tími til að styrkja sambandið við sjálfan sig. Hlusta á huga sinn og hjarta, ögra sér og læra jafnvel eitthvað nýtt.
Það er því þjóðráð að setja saman hæfilega blöndu af samveru og einveru, rútínu og óreglu þannig að umskiptin milli hins hefðbunda daglega lífs og frísins verði ekki of öfgakennd.
Njótið sumarsins kæru Heilsufélagsvinir!