Taktu skref að auknum lífsgæðum
Nýleg könnun Heilsufélagsins leiddi í ljós að minni vinna og aukin hreyfing væri það sem helst gæti bætt lífsgæði og aukið hamingju. En hvað stendur helst í vegi fyrir að við tökum þau skref og hvað getum við gert til þess að hefja vegferð að því lífi sem okkur dreymir um?
Heilsufélagið gerði nýlega könnun á upplifun fólks á ánægju og álagi í starfi og einkalífi sem leiddi margt forvitnilegt í ljós. Þátttakendur voru um 300 Íslendingar, yfir 80% konur. Um 80% þátttakenda var í sambandi, sambúð eða giftur og tæplega 70% voru með barn eða börn yngri en 18 ára á heimilinu. 60% svarenda voru stjórnendur eða sérfræðingar.
Almennt voru þátttakendur ánægðari með einkalíf sitt en starf og upplifðu almennt meira álag í starfi en einkalífi. Þannig sögðust 34% þátttakenda upplifa frekar eða mjög mikið álag í einkalífi en 65% sögðust upplifa frekar eða mjög mikið álag í starfi. Þessi niðurstaða er áhugaverð sérstaklega í ljósi þess að því hefur oft verið haldið fram að álag heima fyrir geri það að verkum að konur upplifi oft mikið álag og streitu í daglegu lífi.
Þátttakendur voru spurðir að því hvað væri það fyrsta sem þeim dytti í hug, ef eitthvað sem þeir gætu gert til þess að auka hamingju sína og/eða lífsgæði var langalgengast að þeir nefndu að þeir vildu vinna minna og hafa meiri tíma til þess að sinna hreyfingu, fjölskyldu og vinum
Þátttakendur voru spurðir að því hvað væri það fyrsta sem þeim dytti í hug, ef eitthvað sem þeir gætu gert til þess að auka hamingju sína og/eða lífsgæði var langalgengast að þeir nefndu að þeir vildu vinna minna og hafa meiri tíma til þess að sinna hreyfingu, fjölskyldu og vinum.
Við vitum sem sagt flest hvað við þurfum að gera til þess að auka lífsgæði okkar en af einhverjum orsökum gerum við það ekki. Við höfum ekki tíma, gefum okkur ekki tíma eða höfum ekki hugrekki til þess að gera nauðsynlegar breytingar á lífi okkar og skapa þannig tíma fyrir það sem mestu máli skiptir fyrir lífsgæði okkar, líkamlega og andlega heilsu.
Ég setti um langa hríð nánast alla mína orku í starfið mitt. Ég hafði gaman að því sem ég var að gera og ég var góð í því. Í mörg ár fannst mér það bara æðislegt. Ég naut þess að sjá sýnilegan árangur af samstarfinu við vinnufélagana. Við náðum flestum okkar markmiðum og það var gaman.
Einn góðan veðurdag stóð ég samt á bjargbrúninni. Mér fannst ég nálgast það að vera örmagna. Mér fannst ég föst í hamstrahjóli þar sem það að halda áfram var eina leiðin. Ef ég stoppaði þá myndi ég missa þá bolta sem ég var sífellt að reyna að grípa og kasta á loft. Ég var að ná að sinna öllu en engu eins vel og mig langaði til.
Ég var að ná að sinna öllu en engu eins vel og mig langaði til.
Svo dæmi sé tekið fannst mér ég standa frammi fyrir því að þurfa að velja á milli þess að ég og dóttir mín gætum haldið áfram að stunda fiðlunám eftir aðferðafræði Suzuki og þess að ég gæti sinnt starfi mínu eins vel og mér fannst ég þurfa. Þetta var óásættanleg staða og ég ákvað, einmitt vegna þess að ég sá að ég átti val, að breyta þessari stöðu - mér, börnum mínum og vonandi nærumhverfi mínu í hag.
Þessi ákvörðun krafðist hugrekkis og um leið mikils aga. Ég ákvað að fjárfesta í frelsinu til þess að stjórna tíma mínum meira sjálf og gera meira af því sem mig langaði hvern dag í stað þess að gera það sem ég þurfti að gera.
Ég tók sem sagt ákvörðun um fylgja hjarta mínu og setja meiri orku í börnin mín, fjölskylduna mína, lífið og ástina. Mig langaði líka að hafa tíma fyrir þá sem þurftu á aðstoð að halda og ég gæti mögulega rétt hjálparhönd.
Ég upplifði allt í einu sterkt að mitt líf og mínir nánustu hefðu fengið of litla athygli og að ég þyrfti að setja tíma í að kynnast sjálfri mér upp á nýtt, því að meira og minna allt mitt líf, langanir og hugsanir voru sniðnar í kringum starfið mitt.
Í þeirri vegferð tamdi ég mér að hefja hvern dag á því að skrifa hugsanir mínar og langanir á blað, skoða hver staða mín var á grunnþörfunum fjórum: svefninum, næringunni, hreyfingunni og samskiptum við fólk og setja niður 3-4 atriði sem mig langaði mest að gera hvern dag, ásamt því að búa til pláss fyrir 3-4 atriði sem ég þurfti að gera. Þessi aðferð virkaði það vel að ég ákvað að hanna dagbók sem rammar inn þessa aðferðafræði svo að aðrir gætu mögulega nýtt hana til árangurs.
Þessi aðferð virkaði það vel að ég ákvað að hanna dagbók sem rammar inn þessa aðferðafræði svo að aðrir gætu mögulega nýtt hana til árangurs.
Bókin ber nafnið Lífsgæðadagbók Heilsufélagsins og hana er hægt að kaupa hér. Þrátt fyrir að mín vegferð hafi leitt til mikilla breytinga á mínu lífi er bókin í grunninn ekki hugsuð sem hvati til byltinga. Staðreyndin er nefnilega sú að flest þurfum við aðeins að gera litlar breytingar á okkar daglega lífi til þess að upplifa meiri árangur og hamingju. Óhætt er að segja að það séu einmitt áhrifin af reglulegri notkun bókarinnar.
Á vegum Heilsufélagsins eru einnig reglulega haldin námskeið þar sem aðferðin við notkun bókarinnar er kennd og dæmi tekin um hvernig hún hefur nýst til þess að hafa jákvæð áhrif á lífsgæði, hamingju og árangur í daglegu lífi.
Með góðri kveðju,
Ragnheiður Agnarsdóttir, stofnandi Heilsufélagsins