Þegar hægir á ferðinni
Það geta falist í því tækifæri að hægja ferðina. Sérstaklega þegar hratt hefur verið farið yfir. Í slíkum aðstæðum gefst meiri tími til þess að horfa til baka, læra af reynslunni og gera betur í nútíð og framtíð.
Við erum að takast á við miklar breytingar um þessar mundir, bæði sem einstaklingar og samfélag. Við höfum á einu augnabliki þurft að tileinka okkur nýja hegðun hvort sem við erum að fylgja reglum um samkomubann, sóttkví eða í einangrun vegna kórónafaraldursins.
Segja má að harkalega hafi verðið stigið á bremsuna, svo harkalega að okkur er illa brugðið. Fæst okkar sáu nefnilega þessa vá fyrir. Þó höfðu nokkrir framtíðarhugsuðir reynt að lýsa því sem nú er staðreynd, tómar götur, lokuð veitingahús, engin mannamót, en fáir lögðu við hlustir. Óttinn við afleiðingar af slíku ástandi var of mikill til þess að við hefðum hugrekki til að búa okkur undir þá sviðsmynd sem nú er orðin að veruleika.
En geta falist tækifæri í þessum aðstæðum? Með því að nálgast lausnir á stöðunni með því hugarfari er alls ekki verið að gera lítið úr þeim heilsufarslegu og efnahagslegu áhrifum sem þessi nauðhemlun hefur haft á líf fólks. Það er hins vegar staðreynd að annar faraldur hefur verið á ferð um heiminn á síðustu árum. Faraldur þar sem margir hafa veikst mikið, jafnvel þannig að þeir hafa ekki átt afturkvæmt til fyrra lífs. Faraldurinn sem hér um ræðir er streitufaraldurinn.
Hvað er velsæld?
Nú þegar verulega hægir á samfélagshraðanum (tempóinu) um allan heim gefst einstakt tækifæri til þess að endurskipuleggja daglegt líf með það að markmiði að minnka þá neikvæðu streitu sem margir voru að kljást við og orsakast af of miklum hraða, of mörgum eða lítið nærandi verkefnum og sífelldri skortshugsun.
Einnig gefst tækifæri fyrir hvern og einn að líta sér nær og skilgreina upp á nýtt hvað er nauðsynlegt til þess að lifa góðu lífi. Mörg dæmi eru um að mælikvarðar á velsæld séu úr öllu samhengi við það sem telst nauðsynlegt. Hversu margir fermetrar af íbúðarhúsnæði eru til dæmis nægjanlegir á mann? Hversu há þurfa laun að vera svo hægt sé að lifa góðu lífi? Er lífshamingjuna að finna í hönnunarvörum og lúxusfæðu sem flutt er yfir hálfan hnöttinn eða getum við betur nýtt það sem við höfum nú þegar í okkar umhverfi til þess að lifa góðu lífi?
Margir sem nú eru á fyrri hluta lífsskeiðsins hafa alla sína tíð upplifað ofgnótt eða aldrei liðið alvarlegan skort af neinu tagi því að þrátt fyrir að einhverjir búi enn við kröpp kjör höfum við aldrei fyrr í mannkynssögunni upplifað meiri efnahagslega velsæld. En hverjar eru afleiðingarnar? Það hefur nefnilega verið að renna upp fyrir mörgum að undanförnu að mögulega hafi kostnaðurinn við að ná slíkri efnahagslegri velsæld verið of mikill, sérstaklega þegar kemur að umhverfislegum áhrifum en einnig þegar kemur að andlegri og líkamlegri heilsu fólks t.d. vegna streitutengdra vandamála.
Lífið eftir kóróna
Sú óvissa sem nú ríkir veldur mörgum áhyggjum og kvíða. Eins og hraði og ofgnótt verkefna getur verið streituvaldandi erum við mörg í þeirri stöðu að finna til þess að verkefnaleysið sem fylgir í breyttum aðstæðum valdi okkur kvíða og jafnvel þungum hugsunum. Manneskjan hefur eðlislæga þörf fyrir að sjá árangur af verkum sínum og það er því ný áskorun fyrir marga að hafa ekki úr ofgnótt verkefna að velja og geta þar af leiðandi ekki verið á harðahlaupum frá morgni til kvölds.
Í slíkum aðstæðum getur verið hjálplegt að gera tvennt;
- Kortleggðu það jákvæða sem kórónalífið hefur þrátt fyrir allt að bjóða. Kórónatíminn er ekki alslæmur. Margir hafa tileinkað sér nýjar, góðar lífsvenjur í aðstæðunum sem vert er að halda í. Samverustundir með fjölskyldu eru fleiri og margir njóta þeirra stunda meira en þeir bjuggust við. Margir hafa fundið ný áhugamál og tileinkað sér nýjar leiðir í hreyfingu. Skrifaðu hjá þér góðu stundirnar í dagbók eða í skjal í tölvunni. Hvernig sérðu fyrir þér að þessar nýju venjur verði hluti af daglegu lífi eftir kóróna?
- Teiknaðu upp skýra mynd af því lífi sem þú ætlar að lifa þegar kórónaváin er yfirstaðin. Hverju viltu breyta í daglegu lífi til þess að njóta þess betur en þú gerðir áður? Áttu þér litla eða stóra drauma um breytingar á lífi og/eða starfi sem nú gefst tækifæri á að láta rætast? Hvernig verða þær breytingar best framkvæmdar? Hvað þarf að gerast til þess að breytingarnar verði að veruleika?
Notum nú tímann sem fram undan er í hæglætinu sem fylgir samkomubanni og gerum uppbyggilegt stöðumat á lífi okkar. Stefnum að því að snúa aftur út í daglegt líf þar sem minna er um neikvæða streitu og óábyrgar neysluvenjur en meira um nærandi stundir og nægjusemi.