Ráðgjöf byggð á víðtækri stjórnunarreynslu

IMG_0110a

Ragnheiður Dögg Agnarsdóttir stofnandi Heilsufélagsins

Sýn

Ég hef í gegnum árin þróað með mér góða greiningarhæfni sem byggir á nánu samspili tölfræðilegra gagna og samtala við fólk. Niðurstöður greininganna hef ég notað til þess að byggja upp skýra framtíðarsýn, sjá tækifæri, miðla markmiðum, koma auga á hæfileika fólks og virkja það til góðra verka og vaxtar. Ég er þeirrar skoðunar að miðlun upplýsinga og einlægni sé grundvöllur trausts. Ef ekki er samtal er ekki samstarf. 

Starfsferill

Stofnandi Heilsufélagsins 2016

Heilsufélagið er ráðgjafarþjónusta sem býður lausnir sem hafa það að markmiði að auka velgengni fólks og fyrirtækja. 

Viðskiptavinir og þar með verkefni hafa verið afar fjölbreytt. 

Þar má m.a. nefna:

  • Skipulagsbreytingar sem hafa það að markmiði að skerpa á hlutverkum og minnka álag á stjórnendur.
  • Gagnagreiningar, viðtöl og ráðgjöf sem hafa að markmiði að finna leiðir til þess að bæta stjórnun og lækka kostnað vegna fjarvista starfsmanna. 
  • Ráðgjöf við skipulagsbreytingar sem hafa að markmiði að bæta rekstur og auka yfirsýn stjórnenda og eigenda.
  • Árangursrík útfærsla á styttingu vinnutíma starfsfólks.
  • Þjálfunaráætlanir.
  • Stjórnendaráðgjöf.

Öll eiga þessi verkefni það sameiginlegt að hafa skilað góðum árangri og styrkt stöðu viðskiptavina.

Framkvæmdastjóri / Tryggingamiðstöðin (TM) / 2006-2016

Hóf störf sem forstöðumaður einstaklingsþjónustu en varð framkvæmdastjóri og sat í framkvæmdastjórn TM 2007-2016. Hef sýnt framúrskarandi hæfni í að leiða fólk og ná árangri í rekstri, afkomustýrinigu, þjónustu, sölu, markaðs- og kynningarmálum. Viðskiptavinir hafa verið um 25.000, starfsmenn um 50 og velta 4-5 milljarðar. Sat í lánanefnd TM og um tíma í stjórn dótturfélaga. TM var skráð í Kauphöll árið 2013 og ég var einn lykilstarfsmanna í þeirri vinnu. TM skilaði bestu afkomu tryggingafélaga á íslenskum hlutabréfamarkaði samkvæmt niðurstöðum sex mánaða uppgjöra 2016.

Stjórnendaráðgjafi / PWC/IBM/ParX / 2000-2006

Vann með stjórnendum tuga íslenskra fyrirtækja og stofnana í að því að meta stöðu stjórnunar og mannauðsmála, skilgreina úrbótaverkefni og veita stuðning í innleiðingu. Öðlaðist innsýn í starfsemi ólíkra atvinnugreina s.s. smásölu, orkuiðnað, framleiðslu, nýsköpun og hugbúnaðargerð.

Hef haldið fjölda fyrirlestra og kynninga á ráðstefnum, í fagfélögum og háskólum.

Reynsla, þekking og sérstaða

#Stefnumótun

Ég hef einlægan áhuga á stefnumörkun almennt enda er skýr stefna með vel útfærðu aðgerðaplani og metnaðarfullum markmiðum meginforsenda árangurs. Ég hef lagt ríkulega til umræðna um framtíðarsýn og stefnu í gegnum tíðina og oft komið með nýjar hugmyndir í þeim efnum. Ég byggi það á reynslu minni að byltingar eru ekki heillavænlegar og ég aðhyllist því hófsemi í framkvæmd. Mér finnst mikilvægast af öllu að einhugur sé um stefnuna og þó að ólíkar skoðanir séu uppi um leiðirnar þá standi hópurinn sem einn maður að baki niðurstöðunni þegar hún liggur fyrir.

#Afkomustýring

Afkomustýring hefur verið mjög ríkur þáttur í starfi mínu siðastliðin 10 ár. Ég hef fengist við greiningar og verðlagningu á flóknu vöruframboði og hef oft þurft að leita nýrra leiða í verðlagningu og aðlögun á vöru og þjónustu.

#Rekstur

Ég hef alla tíð lagt mikla áherslu á það sem stjórnandi að þróa þjónustu við viðskiptavini og styrkja inniviði. Í þeim tilgangi hef ég verið óhrædd við að breyta skipulagi og verkefnum til þess að mæta síbreytilegum þörfum viðskiptavina og starfsmanna án þess að hafa misst sjónar af afkomu og rekstri. Ég hef borið ábyrgð á um 50 starfsmönnum og 22 starfstöðvum víða um land og því hefur fylgt umtalsvert rekstralegt umfang. Ég legg mikla áherslu á að rekstraráætlanir standist og að forgangsröðun verkefna sé skýr og hef náð góðum árangri í hvoru tveggja.

#Nýsköpun

Markaðsstarf og þjónusta þurfa að vera drifin áfram af framsýni og nýsköpunarhugsun og þar fá hæfileikar mínir til að hugsa út fyrir boxið að njóta sín. Ég elska að skora viðteknar venjur á hólm sem gerir það að verkum að ég er oft á tíðum í fararbroddi þess að innleiða nýjungar í þjónustu og markaðssetningu. Nýting upplýsingatækni til þess að varðveita og endurspegla innri og ytri þarfir er þar afar mikilvæg. Með nýtingu samfélagsmiðla sér í lagi þeirrar innsýnar sem þeir veita í daglegt líf, athafnir, langanir, þrár og fyrirætlanir fólks má ná samkeppnisforskoti á hvaða markaði sem er.

#Stjórnun

Sem stjórnandi hef ég lagt ríka áherslu á koma auga á og þróa hæfileika starfsfólks. Ég tel það vera megin verkefni stjórnandans að vinna að því að para saman þarfir viðskiptavina og hæfileika starfsmanna. Oft eru fyrirtæki um of upptekin af sínum þörfum í stað þess að einblína á þróun og þarfir viðskiptavina. Afleiðing þess er oft á tíðum sú að það verður bil milli þarfa viðskiptavina og getu fyrirtækja til þess að koma til móts við þarfir sinna viðskiptavina. Stöðnun er minn óvinur og er sömleiðis versti óvinur þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem ætla að njóta hylli allra hagsmunaaðila (viðskiptavina, starfsmanna, eigenda og samfélagsins) til framtíðar. Stöðugleiki og þróun geta vel farið saman en lausnir á slíkum verkefnum eru oft tímafrekar en um leið mjög lærdómsríkar.

#Markaðs- og kynningarmál

Hugmyndavinna og framkvæmdagleði eru mínir styrkleikar. Líkt og í afkomustýringu og rekstri aðhyllist ég kerfisbundnar mælingar og greiningar á ásýnd, styrk vörumerkja, þjónustu og vöruframboði. Samkeppnisgreiningar eru mikilvægt tól í slíkum greiningum en þær hafa í gegnum tíðina veitt mér góða innsýn í þau tækifæri sem oft felast í að útfæra vöru og þjónustu með bæði einfaldari og frumlegri hætti.

  • TM var eitt af 10 efstu fyrirtækjum í markaðsmálum samkvæmt mælingum ÍMARK 2016 og kom reglulega við sögu á þeim lista á þeim tíma sem markaðsmálin voru á minni ábyrgð. Ég ritstýrði einnig og hafið yfirumsjón með nýjum ytri vef TM sem settur var í loftið í byrjun árs 2013 en vefurinn var í kjölfarið tilnefndur af SVEF í hópi stærri fyrirtækja, fyrir gott aðgengi fyrir viðskiptavini.

#Fjárfestatengsl

Ég ritstýrði ársskýrslum og fréttatilkynningum TM frá árinu 2008 til starfsloka og var helsti hvatamaður þess að birta ársskýrsluna eingöngu á vefnum en TM var annað fyrirtækið á Íslandi til þess að fara þá leið, árið 2013. Ég hef aðhyllst einfaldleika og takmörkun á íburði þegar kemur að því að sinna fjárfestatengslum. Í því endurspeglast sú trú mín að ef efnið er gott bætir glanspappír engu við og getur jafnvel truflað. Frá árinu 2008 bar ég einnig ábyrgð á samskiptum félagsins við fjölmiðla.

Menntun

M.A. Mannauðsstjórnun / Háskóli Íslands / 2008

Öðlaðist ágæta færni í að skipuleggja og stýra mannauði fyrirtækja og stofnana.

B.A. Sálfræði / Háskóli Íslands / 2000

Öðlaðist góða gagnagreiningarhæfni, tileinkaði mér öguð vinnubrögð og öðlaðist góða innsýn í mannlega hegðun, sem hefur nýst vel til þess að finna leiðir til þess að leiða fólk og veita ögrandi verkefnum forystu.

Hef setið fjölda námskeiða m.a. um fjármál, markaðsmál, mannauðsmál og þjónustu. Hef einnig lokið námskeiði um árangur og ábyrgð stjórnamanna í HR.