Hver eru réttindi þín ef þú veikist eða slasast?
Blómi lífsins gerir það að verkum að við hugleiðum sjaldan þau réttindi sem við njótum ef upp koma veikindi eða slys. Kerfið virðist mörgum flókið utan frá séð og ekki að ástæðulausu. Heilsufélagið hefur tekið saman yfirlit yfir þau réttindi sem fólk nýtur eða getur notið ef upp koma veikindi eða slys.
- Þeir sem ekki vilja lesa sér til um réttindi sín í meðfylgjandi grein en hafa þess í stað áhuga á persónulegri leiðsögn og aðstoð við að ná yfirsýn yfir sín réttindi geta haft samband við Heilsufélagið með því að senda tölvupóst á netfangið heilsufelagid@heilsufelagid.is .
Þeir sem hins vegar hafa tíma og áhuga á að lesa sér sjálfir til, njótið!
Til einföldunar skiptum við þeim réttindum eða tryggingum sem hægt er að njóta í almannatryggingar (tryggingar sem allir njóta, á vegum hins opinbera, lífeyrissjóða og vinnuveitenda) og valfrjálsar tryggingar (tryggingar sem hægt er að velja um að njóta).
Almannatryggingar |
Valfrjálsar tryggingar |
Vinnuveitandi: Samkvæmt kjarasamningum ber vinnuveitanda að slysatryggja starfsmenn sína. Starfsmenn njóta einnig veikindaréttar hjá vinnuveitanda. |
Stéttarfélög: Þeir sem greiða í stéttarfélög geta sótt um styrki í sjúkra- og styrktarsjóði stéttarfélags síns. |
Lífeyrissjóður: Öllum ber lögum samkvæmt að greiða í lífeyrissjóð og ber vinnuveitanda að skila greiðslum til sjóðsins. Þeim er ætlað að standa undir greiðslum t.d. vegna óvinnufærni (örorku), ellilífeyris og vegna fráfalls maka. |
Viðbótarlífeyrissparnaður: Er viðbót við lögbundinn lífeyrissparnað og er þín eign. Þú ræður hvernig þú ráðstafar honum eftir að þú nærð 60 ára aldri og hann erfist að fullu. |
Sjúkratryggingar: Niðurgreiða kostnað vegna lyfja, læknisþjónustu og endurhæfingar. |
Tryggingafélög: Hægt er að njóta viðbótarverndar ef upp koma sjúkdómar eða slys með því að kaupa sjúkra-, slysa-, líf- og sjúkdómatryggingar hjá tryggingafélögunum. |
Tryggingastofnun: Greiðir framfærslustyrki í formi barna-, örorku-, endurhæfingar- eða ellilífeyris. |
|

Almannatryggingar
Vinnuveitendur
Atvinnuþátttaka Íslendinga er mjög mikil og því njóta flestir réttinda hjá vinnuveitanda ef veikindi eða slys koma upp. Leiði veikindi eða slys til óvinnufærni nýtur þú í fyrstu réttinda hjá vinnuveitanda. Almenna reglan á almennum vinnumarkaði eru tveir veikindadagar fyrir hvern unninn mánuð á fyrsta starfsári.
Veikindaréttur hjá starfsmönnum ríkisins og sveitarfélaganna er nokkuð ríkari en á almennum markaði og er eins og hér segir: Starfsmaður sem ráðinn er til starfa á mánaðarlaunum í kjarasamningi í a.m.k. 2 mánuði skal halda launum svo lengi sem veikindadagar hans, taldir í almanaksdögum, verða ekki fleiri á hverjum 12 mánuðum en hér segir:
Starfstími |
Fjöldi daga |
0-3 mánuðir í starfi |
14 |
Næstu 3 mánuðir |
35 |
Eftir 6 mánuði |
119 |
Eftir 1 ár |
133 |
Eftir 7 ár |
175 |
Eftir 12 ár |
273 |
Eftir 18 ár |
360 |
Heimild: https://www.bhm.is/kaup-og-kjor/veikindarettur/
Félagsmenn VR, sem er fjölmennasta stéttarfélag landsins, ávinna sér veikindarétt sem hér segir:
- Á fyrsta ári, tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð.
- Eftir 1 ár í starfi hjá sama vinnuveitanda, tveir mánuðir á hverju 12 mánaða tímabili.
- Eftir 5 ár í starfi hjá sama vinnuveitanda, fjórir mánuðir á hverju 12 mánaða tímabili.
- Eftir 10 ár í starfi hjá sama vinnuveitanda, sex mánuðir á hverju 12 mánaða tímabili.
Starfsmaður sem hefur áunnið sér réttindi til 4 eða 6 mánaða launagreiðslna í veikindaforföllum hjá síðasta vinnuveitanda og skiptir um vinnuveitanda á rétt til launagreiðslna eigi skemur en í 2 mánuði á hverjum 12 mánuðum.
Þeir sem eru sjálfstætt starfandi þurfa að huga vel að réttindum sínum ef upp koma veikindi eða slys og í flestum tilfellum er skynsamlegast fyrir þá sem starfa við eigin rekstur að slysa- og sjúkratryggja sig. Bótagreiðslur slíkra trygginga, sem eru valfrjálsar, taka mið af tekjum, starfi og heilsufari þess sem tryggja á.
Lífeyrissjóðir (t.d. www.live.is, www.lifbru.is o.fl.)
Öllum sem stunda atvinnu ber lögum samkvæmt að greiða í lífeyrissjóð og er þeim greiðslum ætlað að standa undir framfærslu fólks sem ýmist hefur töku ellilífeyris við starfslok eða verður óvinnufært um lengri eða skemmri tíma. Það er mikilvægt að fylgjast með því að vinnuveitandi standi skil á greiðslum í lífeyrissjóð en það má gera með því að skoða yfirlit á „þínum síðum“ hjá þeim lífeyrissjóði sem þú valdir að greiða í þegar gengið var frá ráðningu.
Sjúkratryggingar Íslands (www.sjukra.is)
Hlutverk Sjúkratrygginga Íslands er að tryggja Íslendingum aðgang að góðri og hagkvæmri heilbrigðisþjónustu. Í 1. gr. laga um sjúkratryggingar (Nr. 12/2008) segir að markmið laganna sé að „tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.“
Nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna heilbrigðisþjónustu tók gildi 1. maí 2017 og er markmið þessa nýja kerfis að lækka útgjöld þeirra einstaklinga sem þurfa mikið á heilbrigðisþjónustu að halda og hafa greitt háar fjárhæðir fyrir þá þjónustu.
Sjúkratryggingar bjóða eins og aðrir þjónustuaðilar upp á rafræna gátt, Réttindagátt, þar sem hver og einn getur fylgst með sínum réttindum eða fengið upplýsingar um eftirfarandi:
- Læknisþjónustu - afsláttarkort
- Lyfjakaup – þrepastöðu og lyfjaskírteini
- Hjálpartæki og næringarefni
- Persónuafslátt, rafræna skráningu á ráðstöfun (skattkort)
- Sótt um Evrópskt sjúkratryggingaskírteini (ES-kort)
- Auk þess er hægt að sjá greiðsluskjöl og viðskiptayfirlit vegna sjúkratrygginga, slysatrygginga og sjúklingatryggingar.
Þá er einnig hægt að skrá heimilistannlækni fyrir börn sín í gáttinni.
Mikilvægt er að yfirfara og uppfæra reglulega persónuupplýsingar þínar eins og netfang og bankareikningsnúmer í Réttindagátt Sjúkratrygginga á sjukra.is. Upplýsingarnar uppfærast þá einnig hjá Tryggingastofnun.
Tryggingastofnun (www.tr.is)
Hlutverk Tryggingastofnunar er að framfylgja lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni langveikra barna auk þess að sinna öðrum verkefnum sem stofninni er falið að framkvæma. Á mannamáli er stofnuninni ætlað að tryggja fólki ákveðna lágmarksframfærslu t.d. vegna óvinnufærni (vegna slysa eða veikinda) eða aldurs (eftir að starfsævi lýkur).
Þeir sem veikjast eða slasast en eru ekki komnir á ellilífeyrisaldur fá greiddar örorkubætur en þeir sem eru 67 ára eða eldri fá greiddan ellilífeyri ef þeir njóta ekki ákveðinna lágmarksréttinda hjá sínum lífeyrissjóði. Örorku- og lífeyrisgreiðslur skerðast vegna annarra tekna samkvæmt ákveðnum reglum. Lífeyrisreiknivél Tryggingastofnunar gefur góða hugmynd um áhrif tekna á lífeyrisgreiðslur frá TR.
- Örorka ( http://www.tr.is/oryrkjar/ ). Þeir sem ekki geta unnið fulla vinnu sökum skertrar starfsgetu geta sótt um örorkulífeyri. Jafnframt er hægt að sækja um ýmsa styrki og uppbætur eftir aðstæðum hvers og eins. Meðal annars er um að ræða örorkustyrk, aldurstengda örorkuuppbót, maka- og umönnunarbætur, heimilisuppbót, uppbót á lífeyri og sérstaka uppbót vegna framfærslu.
- Endurhæfing ( http://www.tr.is/endurhaefing/ ). Endurhæfingarlífeyrir er ætlaður þeim sem eru óvinnufærir vegna sjúkdóma eða slysa og eru í endurhæfingu til að komast aftur út á vinnumarkað. Meginskilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu í umsjón fagaðila með starfshæfni að markmiði. Óvinnufærni án virkrar endurhæfingar veitir ekki rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris.
- Barnafjölskyldur ( http://www.tr.is/barnafjolskyldur/). Tryggingastofnun veitir barnafjölskyldum margvíslega aðstoð vegna veikinda barna, andláts foreldris og meðlagsgreiðslna.
- Almenn réttindi (http://www.tr.is/almenn-rettindi/). Allir geta átt rétt á fjárhagslegri aðstoð við sérstakar aðstæður, eins og vegna mikils kostnaðar við læknisþjónustu, lyf eða þjálfun og við andlát maka.
Valfrjálsar tryggingar
Viðbótarlífeyrissparnaður (t.d. www.almenni.is, www.live.is ofl.)
Segja má að viðbótarlífeyrissparnaður sé hagkvæmasti sparnaður sem völ er á. Mótframlag launagreiðanda gerir það að verkum að ef þú kýst viðbótarlífeyrissparnað ertu í raun að tryggja þér 2% launahækkun því að þeir sem ekki nota þessa sparnaðarleið fá ekki mótframlag frá launagreiðanda. Viðbótarlífeyrissparnaður tryggir þér rýmri fjárhag en ella eftir 60 ára aldur en þá er hann laus til innlausnar, hann erfist að fullu og er ekki aðfararhæfur við gjaldþrot. Almennt má segja að þeir sem ekki greiða í viðbótarlífeyrissparnað lækki verulega í tekjum njóti þeir eingöngu almennra lífeyrisgreiðslna eftir að starfsævi lýkur.
Stéttarfélög (t.d. www.vr.is, www.bhm.is ofl.)
Sögulega hefur hátt hlutfall Íslendinga verið í stéttarfélögum. Þeir sem veikjast njóta ýmissa réttinda úr sjúkra- og styrktarsjóðum stéttarfélaganna t.d. er varðar útlagðan kostnað vegna læknisþjónustu og endurhæfingar. Stéttarfélögin greiða einnig sjúkradagpeninga eftir að launatekjur falla niður vegna veikinda eða slysa, slysa- og dánarbætur.
Tryggingafélög
Oft gætir misskilnings um þá vernd sem í boði er í frjálsum tryggingum tryggingafélaganna og margir telja sig vera vel tryggða séu þeir eingöngu með líf- og sjúkdómatryggingar. Það getur vel átt við um þá sem eru starfsmenn og njóta þar með trygginga í vinnu og sértaklega um þá sem eru einnig í stéttarfélögum þar sem slíkar tryggingar eru hluti af félagsgjöldum.
Það er þó mikilvægt að skoða vel þau réttindi sem sjúkra- og slysatryggingar vinnuveitanda og stéttarfélaga tryggja og ganga þannig frá málum að þú verðir ekki fyrir verulegu tekjutapi ef upp koma sjúkdómar sem ekki eru bótaskyldir úr sjúkdómatryggingum (sért þú með slíka) og einnig ef slíkt slys verður utan vinnutíma.
Heimilis- og fjölskyldutryggingar tryggingafélaganna (t.d. F+ hjá VÍS og Heimatrygging TM) innihalda margar hverjar slysatryggingar í frítíma en bætur í þeim eru hins vegar fremur lágar.
- Sjúkra- og slysatryggingar eru sveigjanlegar tryggingar sem greiða bætur bæði vegna tímabundinnar og varanlegrar óvinnufærni af völdum slysa eða sjúkdóma. Þeir sem eru sjálfstætt starfandi hvort sem er að hluta eða að fullu þurfa að hafa slíka tryggingu.
- Líftryggingar greiða rétthöfum (erfingjum eða þeim sem þú tilnefnir) bætur við fráfall þitt hvort sem það verður af völdum slyss eða sjúkdóms.
- Sjúkdómatrygging greiðir bætur til þess sem tryggður er greinist hann með tiltekinn sjúkdóm sem tilgreindur er í skilmálum. Til einföldunar má nefna að algengast er að bætur séu greiddar úr sjúkdómatryggingum greinist sá sem tryggður er með krabbamein en fleiri sjúkdómar sem eru sjaldgæfari eru einnig bótaskyldir.
Rétt er að taka fram í umfjöllun um slysatryggingar að þær undanskilja almennt bætur vegna slysa sem verða að völdum vélknúinna ökutækja þar sem slík slys eru bætt úr slysalið ökutækjatrygginga.
Hvernig get ég auðveldað mér að ná yfirsýn yfir mín réttindi?
Til þess að ná yfirsýn yfir réttindi þín skaltu gera eftirfarandi:
- Óska eftir upplýsingum frá vinnuveitanda um þær tryggingar sem þú nýtur hjá honum vegna veikinda eða slysa sem rekja má til vinnu þinnar eða þú verður fyrir í vinnu eða til og frá vinnustað.
- Skoða réttindagátt þína hjá Sjúkratryggingum Íslands ( www.sjukra.is )
- Skoða „mínar síður“ hjá Tryggingastofnun ( www.tr.is )
- Skoða „mínar síður“ hjá lífeyrissjóðnum þínum. Þeir sem greiða t.d. í Lífeyrissjóð verslunarmanna gera það á slóðinni live.is
- Skoða „mínar síður“ vegna viðbótarlífeyrissparnaðar sértu með hann. Ef þú ert ekki með slíka viðbót þá að skoða að vel að sækja um hjá þeim lífeyrissjóðum, bönkum eða tryggingafélögum sem bjóða slíkt. Ætlir þú að hefja viðbótarlífeyrissparnað þarftu einnig að tilkynna vinnuveitanda um það.
- Skoða „mínar síður“ hjá stéttarfélaginu þínu.
- Skoða „mínar síður“ hjá tryggingafélaginu þínu.
Langflestir þessara aðila bjóða upp á innskráningu með rafrænum skilríkjum eða Íslykli og því er mikilvægt að hafa annað hvort við höndina.
Einnig bjóða ráðgjafar hjá Tryggingastofnun, Sjúkratryggingum, lífeyrissjóðum, bönkum, stéttarfélögum og tryggingafélögum upp á aðstoð hvað varðar sín svið.
Gangi þér vel að ná yfirsýn yfir réttindi þín svo að þú og fjölskylda þín getið áhyggjulaus notið lífsins.
Ef þú hefur spurningar eða þarfnast aðstoðar við að ná heildstæðu yfirliti yfir réttindi þín er Heilsufélagið þér til aðstoðar í gegnum síma 892 7965 , tölvupóst heilsufelagid@heilsufelagid.is , eða spjallið á Facebook .
Heimildir
- www.almenni.is
- www.bhm.is
- www.live.is
- www.sjukra.is
- www.tr.is
- www.vr.is