Af hörðum körlum og umhyggjusömum konum
Því hefur verið haldið fram að til þess að fullkomið jafnrétti ríki á vinnumarkaði þurfi konur að láta frá sér leiðtogahlutverkið á heimilinu. Á móti má segja að leikreglur vinnumarkaðarins og hugmyndir okkar um leiðtoga á þeim vettvangi verði einnig að taka breytingum.
Hugmyndir okkar um leiðtoga hafa þróast með mannkyninu en þróunin hefur þó verið ótrúlega hæg ef grannt er skoðað.
Framan af öldum var leiðtoginn karl sem leiddi hópinn til veiða. Lífsbaráttan var hörð og samvinna veiðimannanna var nauðsynleg til þess að þeir ættu möguleika á að ná í bráð og lifa af. Á sama tíma gættu konurnar bús og barna.
Sá sem varð fyrir valinu sem leiðtogi veiðimannanna var yfirleitt sá sem skaraði framúr í líkamlegu atgervi. Hann tók af skarið, var úrræðagóður og varð óskoraður foringi hópsins ef vel gekk.
Karlleiðtoganum var á fyrstu árum iðnbyltingarinnar oft lýst sem hörðum, miskunarlausum, valdsmannlegum og jafnvel sjálfhverfum. Á sama tíma voru algengar lýsingar á eftirsóknarverðum eiginleikum kvenna þær að góð kona væri fórnfús, hjálpsöm, umhyggjusöm, hefði mikla samkennd og hefði góða félagslega og samskiptalega hæfni.
Með töluverðri einföldun mætti því segja að hugmyndir okkar um hvað einkenni góða leiðtoga séu fremur karllægir eiginleikar en kvenlægir. Það er sem betur fer að breytast en heldur hægt þykir mörgum.

Ef við skoðum nútímann með augum leikjafræðinnar má líta á vinnustaði sem leikvöll sem óhætt er að fullyrða að miðist við leikreglur sem skrifaðar eru af körlum fyrir karla enda voru karlar einráðir á þeim leikvelli allt þar til um miðja síðustu öld. Að sama skapi eru leikreglur heimilis- og fjölskyldulífs skrifaðar af konum fyrir konur enda hefur heimilið í gegnum tíðina verið yfirráðasvæði konunar og er að einhverju leyti enn.
Fjölbreytni er til góðs heyrist oft nefnt í umræðunni um jafnrétti og algjörlega er hægt að taka undir þá staðhæfingu. Að sama skapi má fullyrða að öll framþróun sem ýtir undir fjölbreytni sé af hinu góða. Til þess að framþróun verði í rétta átt þarf að veita henni athygli og vinna markvisst gegn kreddum og viðhaldi úreltra staðalmynda.
Þegar leikreglur vinnumarkaðarins og heimilisins og þar með leikvallarins alls verða án innbyggðrar kynjaskekkju verður mjög áhugavert að sjá hvaða eiginleikar fólks muni helst njóta hylli og skila árangri.
Munu þeir eiginleikar sem í gegnum tíðina hafa fremur verið tengdir karlmennsku eins og líkamlegt atgervi, harka og miskunarleysi eða kvenlegir eiginleikar eins og samkennd, umhyggja og samskiptahæfni leiða til velgengni fólks og fyrirtækja í framtíðinni? Það verður án efa áhugvert að fylgjast með því hvernig við svörum þeirri grundvallarspurningu.